13.2.2019

Sýning Sigurrósar Eiðsdótttur, SUND,

Föstudaginn 8. febrúar var sýning Sigurrósar Eiðsdótttur, SUND, formlega opnuð í salnum í Jónshúsi. SUND er röð ljósmynda eftir Sigurrós sem hún hefur klippt og endurraðað.

Margt var um manninn við opnunina og var sýningunni gerður góður rómur. Nokkrar myndir hafa verið seldar, þó er enn hægt að tryggja sér mynd. 

Fleiri myndir frá viðburðinum hér. 

Sýningin stendur til 3. apríl og unnt er að skoða hana þegar húsið er opið, sem er þriðjud. til föstud. frá kl. 11 til 17 og um helgar frá kl. 10 til 16. 

Sigurrós vinnur aðallega með ljósmyndun og klippimyndir í mínímalískum stíl og notast ýmist við sínar eigin ljósmyndir eða fundið efni í klippimyndirnar. Áhugi hennar á grafískri hönnun endurspeglast í verkum hennar. 

https://www.facebook.com/sigurrros

sigurroseidsdottir@gmail.com

„Sundlaugin hefur alltaf verið partur af mínu lífi. Hún hefur sérstaklega haft mikla fagurfræðilega þýðingu fyrir mig. Það hvernig vatnið og blái liturinn tvinnist saman er einstaklega grípandi og hreyfingin í vatninu skapar síbreytileg listaverk. Augnablikin getur maður síðan fest á mynd. Þá er líkaminn líka svo fallegur í sundlauginni. Hann flýtur og er frjáls; partur af lauginni. Það að horfa á vatn hefur einnig ákveðið dáleiðsluvald, tíminn virðist oft afstæður á meðan. Það má í raun segja að sýningin sé eins konar óður minn til íslensku sundlaugarinnar sem ég sakna svo mikið”

Sigurrós Eiðsdóttir (f.1991) útskrifaðist með BA-gráðu í myndlist frá Goldsmiths háskólanum í London árið 2016. Hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga, meðal annars í London, Leipzig, Berlín, Adelaide og Reykjavík. SUND er þriðja einkasýning Sigurrósar en hún hefur einnig verið með einkasýningu í London og Adelaide. Sigurrós býr og starfar í Berlín.