Úthlutun fræðimannsíbúðar Húss Jóns Sigurðssonar á 2. hæð
Úthlutun fræðimannsíbúðar Húss Jóns Sigurðssonar
Úthlutunarnefnd fræðimannsíbúðar, samkvæmt reglum um Hús Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn, hefur lokið störfum og úthlutað íbúð fræðimanns á 2. hæð hússins frá ágústlokum 2020 til sama tíma að ári.
Vegna takmarkaðra ferðamöguleika og heimsfaraldurs kórónuveiru urðu fimm fræðimenn frá að hverfa sem höfðu áður fengið úthlutað í fræðimannsíbúð. Úthlutunarnefnd samþykkti einróma að þessir fræðimenn skyldu hafa forgang við dvöl í fræðimannsíbúð á því tímabili sem til úthlutunar var. Alls bárust 28 umsóknir og þeir fræðimenn sem fengu úthlutun, ásamt þeim sem bættur var dvalartími, eru:
- Anna Helga Jónsdóttir, til að vinna að þróun kennsluhugbúnaðar í tölfræði og stærðfræði;
- Ágúst Geir Ágústsson, til að vinna verkefni um stjórnarskrárbundið verkskiptingarvald forsætisráðherra og samanburð á meðferð þess hér á landi og í Danmörku;
- Björn Guðbjörnsson og Kolbrún Albertsdóttir, til að vinna annars vegar að norrænu og evrópsku rannsóknarsamstarfi um notkun líftæknilyfja gegn gigtarsjúkdómum og hins vegar verkefni sem ber heitið „Undragerð rammra örlaga“;
- Clarence E. Glad, til að vinna verkefni um áhrif dansk-íslenskrar samvinnu við útgáfur fornnorrænna rita í Kaupmannahöfn 1825–1864;
- Helgi Tómasson, til að vinna verkefni sem ber heitið „Tímaraðagreining í samfelldum tíma á skuldabréfamarkaði: Hugsanleg áhrif kerfisbreytinga“;
- Helgi Þorláksson, til að vinna verkefni um Íslandslýsingar frá 16. öld;
- Hrafnhildur Schram, til að vinna verkefni sem ber heitið „Feðgarnir Gottskálk Þorvaldsson myndskeri (1741–1806) og Albert (Bertel) Thorvaldsen (1770–1844) og höggmyndalistin“;
- Kristjana Kristinsdóttir, til að rannsaka skjöl í Leyndarskjalasafni konungs frá 16.–17. öld sem varða Ísland;
- Kristján Árnason, til að vinna að ritun handbókar um sögu íslenskrar tungu;
- Sif Ormarsdóttir, til að vinna að ICE-IBD gagnagrunni yfir sjúklinga með langvinna bólgusjúkdóma í görn sem fá meðferð með líftæknilyfjum;
- Snæfríður Þóra Egilson, til að vinna að rannsókn á lífsgæðum og þátttöku fatlaðra barna og unglinga;
- Viðar Hreinsson, til að vinna verkefni um Jón lærða og norræn vísindi á 17. og 18. öld;
- Örnólfur Thorsson, til að vinna að nýrri útgáfu fornaldarsagna.
Í úthlutunarnefndinni eiga sæti dr. Anna Soffía Hauksdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, sem er formaður nefndarinnar, dr. Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, og Drífa Hjartardóttir, fyrrverandi alþingismaður. Ritari nefndarinnar er Jörundur Kristjánsson, forstöðumaður skrifstofu forseta Alþingis.