Úthlutun fræðimannsíbúðar Húss Jóns Sigurðssonar 2013-2014
Úthlutunarnefnd fræðimannsíbúðar bárust að þessu sinni 32 umsóknir. Átta fræðimenn fá afnot af íbúðinni.
Úthlutunarnefnd fræðimannsíbúðar, samkvæmt reglum um Hús Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn, hefur lokið störfum og úthlutað íbúðinni frá ágústlokum 2013 til ágústloka 2014.
Í nefndinni eiga sæti Anna Agnarsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, formaður, og Ágúst Einarsson, prófessor og fyrrverandi rektor við Háskólann á Bifröst. Ritari nefndarinnar er Jörundur Kristjánsson, alþjóðaritari á skrifstofu forseta Alþingis.
Alls bárust nefndinni að þessu sinni 32 umsóknir. Átta fræðimenn fá afnot af íbúðinni, sem hér segir:
- Áslaug Sverrisdóttir, til að vinna verkefni um norræn samskipti um málefni heimilisiðnaðar.
- Gísli Pálsson, til að vinna verkefni tengt ævisögu Hans Jónatans.
- Helgi Tómasson, til að vinna verkefni um hönnun tölfræðilíkana og áhættugreiningu á skuldabréfamarkaði og sögu og eðli skuldabréfamarkaðar í Danmörku.
- Hrafnhildur Schram, til að vinna verkefni um Nínu Sæmundsson, fyrsta íslenska kvenmyndhöggvarann.
- Jón Ólafsson, til að vinna verkefni um Íslendinga í danska Kommúnistaflokknum og samskipti hans við KFÍ og Sósíalistaflokkinn á Íslandi 1930 til 1968.
- Sigurður Gylfi Magnússon, til að vinna verkefni er nefnist „Hugmyndafræði hversdagslífsins á 19. öld“.
- Svanhildur Óskarsdóttir, til að vinna að rannsókn og textaútgáfu á AM 764 4to handritinu sem hefur að geyma veraldarsögu, heilagra manna sögur, jarðteinir og ævintýr og varðveitt er í Árnasafni í Kaupmannahöfn.
- Tryggvi Gunnarsson, til að vinna að samanburði á þróun réttarheimilda og eftirlits- og athafnaskyldna innan stjórnsýslunnar í dönskum og íslenskum rétti.
Fræðimannsíbúðin í Kaupmannahöfn, tengd nafni Jóns Sigurðssonar, er skammt frá Jónshúsi, í Sankt Pauls Gade 70. Fræðimaður hefur vinnustofu í Jónshúsi.