Úthlutunarreglur
Úr reglum um hús Jóns Sigurðssonar:
8. grein
Í Jónshúsi skulu vera tvær íbúðir, ætlaðar til afnota fyrir Íslendinga sem stunda rannsóknar- og fræðistörf sem þörf er á að sinna í Kaupmannahöfn.
9. grein
Fyrir afnot af íbúð skal greiða gjald sem samsvarar rekstrarkostnaði íbúðar (m.a. fyrir hita og rafmagn). Upphæð gjaldsins skal tilgreind hverju sinni í auglýsingu. Íbúðirnar skulu búnar öllum nauðsynlegum heimilisbúnaði en stjórn hússins ákveður að öðru leyti hvernig íbúðirnar eru útbúnar og annast rekstur og viðhald þeirra.
Hússtjórnin getur sett nánari skilmála um afnot og umgengni.
10. grein
Úthlutunarnefnd ráðstafar íbúðunum hverju sinni eftir þeim umsóknum sem berast. Forseti Alþingis skipar þrjá menn í nefndina að höfðu samráði við forsætisnefnd. Einn þeirra skal vera formaður. Þess skal gætt að nefndarmenn hafi fræðilega þekkingu og endurspegli eftir því sem kostur er þann breiða hóp sem sótt getur um afnot af íbúðunum, sbr. 13. gr. Nefndarmenn skulu vera af báðum kynjum.
Nefndin skal skipuð til fjögurra ára.
11. grein
Úthlutunarnefndin auglýsir íbúðirnar opinberlega til umsóknar. Önnur íbúðin skal auglýst til umsóknar eigi síðar en fyrir lok aprílmánaðar og hin eigi síðar en fyrir lok októbermánaðar. Í auglýsingu skal getið hverjir séu skilmálar fyrir afnotum, með hvaða kjörum þær fáist og hver séu meginsjónarmið við úthlutunina.
Umsóknaeyðublað skal vera aðgengilegt á heimasíðu Jónshúss (jonshus.dk). Í umsókn skal tekið fram hve lengi umsækjandi æski afnota, fyrir hvaða tímabil, og að hvaða verkefnum hann hyggist vinna.
Rétt til að sækja um afnot af íbúðinni hafa allir þeir sem hyggjast sinna rannsóknum sem að öllu leyti eða að hluta til verða ekki unnar annars staðar en í Kaupmannahöfn.
12. grein
Úthlutunarnefndin ráðstafar íbúðunum hverju sinni eftir þeim umsóknum sem berast. Nefndin skal meta tímalengd dvalar eftir eðli verkefnis umsækjanda og óskum hans, en dvalartími getur þó að jafnaði ekki orðið lengri en fjórir mánuðir. Við úthlutun skal horft til þess hvort verkefnið hafi fræðilegt eða hagnýtt gildi eða þyki að öðru leyti áhugavert viðfangsefni. Þá skal þess gætt að sem eðlilegust skipting sé milli kynja. Þegar umsækjendur eru jafnsettir skulu þeir ganga fyrir sem sækja um dvöl í fyrsta skipti.
Úthlutunarnefndinni er heimilt að leita álits sérfræðinga um umsækjendur og þau verkefni sem þeir hyggjast vinna að ef hún telur þörf á.
13. grein
Skrifstofa Alþingis lætur nefndinni í té þá aðstoð sem þörf er á. Skal einn starfsmanna hennar vera ritari nefndarinnar.
Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist af fjárveitingum til reksturs Jónshúss.
14. grein
Úthlutunarnefndin getur sett sér nánari starfsreglur. Þær skulu staðfestar af forseta Alþingis.
15. grein
Þegar úthlutun liggur fyrir skal hún send forseta Alþingis og stjórn Húss Jóns Sigurðssonar og síðan birt opinberlega.