Sjálfstæðisbaráttan
Hugvekja til Íslendinga
Árið 1848 afsalaði Danakonungur sér einveldi. Þá birti Jón Hugvekju til Íslendinga og var það stefnuskrá hans í sjálfstæðisbaráttunni, sem flestir Íslendingar fylgdu undir forystu hans. Hér kom Jón fram með hin sögulegu rök, sem urðu eins og rauður þráður í allri hans baráttu, en aðalatriði hennar var að Íslendingar fengju að ráða sér sjálfir.
Dagur er upp kominn,
dynja hana fjaðrar,
mál er vílmögum
að vinna erfiði.
Hin sögulegu rök
Hver voru hin sögulegu rök sem Jón Sigurðsson hamraði á við Dani?
- Réttindi Íslands byggðu á Gamla sáttmála frá 1262 sem Íslendingar gerðu við Hákon gamla Noregskonung. Þar gengu þeir í samband við Noreg sem „frjálst land“ með ákveðnum skyldum og réttindum. „Öll stjórn þeirra og lög skyldu vera innlend.“
- Þegar einveldi Danakonungs komst á 1662 játuðu Íslendingar því oki með trega.
- Eftir að Danakonungur afsalaði sér einveldi árið 1848 áttu hin fornu réttindi Íslendinga samkvæmt Gamla sáttmála að taka gildi á nýjan leik.
Þjóðfundur
Danska stjórnin boðaði til þjóðfundar í Reykjavík sumarið 1851. Lagði hún frumvarp fyrir fundinn þar sem þjóðréttindi Íslendinga voru höfð að engu. Íslensku fulltrúarnir lögðu hins vegar fram annað frumvarp undir leiðsögn og forystu Jóns Sigurðssonar. Var þar byggt á kenningum hans í hugvekjunni frá 1848. Ekki leist konungsfulltrúa, Trampe greifa, á frumvarp Jóns Sigurðssonar og samherja hans og sleit hann því fundinum í nafni konungs. Þá hljómaði setningin sem margir kannast við: „Vér mótmælum allir.“
Á þjóðfundinum tók Jón Sigurðsson endanlega forystu fyrir Íslendingum í baráttu þeirra fyrir auknum stjórnarfarslegum réttindum og hélt henni til æviloka.
Málverk af þjóðfundinum eftir Gunnlaug Blöndal.
Frjáls verslun
Jón lagði sig fram um að kynna sér allt sem hann gat viðvíkjandi verslunar- og hagsögu Íslands. Hann benti á að verslunarfrelsi væri undirstaða þjóðfrelsis. Hann hamraði sífellt á því að einokunarverslunin hefði haft afgerandi áhrif til ills fyrir þjóðina. Öflug forysta hans hafði úrslitaáhrif á að verslun við Ísland var gefin öllum þjóðum frjáls 1. apríl 1855.
Jón forseti
Vorið 1851 var Jón kosinn forseti Hafnardeildar Bókmenntafélagsins og var hann þá staddur á skipi á Atlantshafi á leið á þjóðfund. Var þetta gert að honum forspurðum. Störf hans fyrir félagið urðu mjög umfangsmikil og gegndi hann forsetastarfinu til æviloka. Af þessu starfi fékk hann viðurnefnið forseti.
Ólaunaður sendiherra
Segja má að Jón hafi verið nokkurs konar ólaunaður sendiherra Íslendinga í Kaupmannahöfn og að hann hafi haldið þar uppi viðskiptaskrifstofu fyrir þá á eigin kostnað. Sá hlutur var varla til sem landar hans báðu hann ekki um að hjálpa sér með. Gerði hann það með glöðu geði og var þessi greiðvikni vafalítið snar þáttur í pólitískri velgengni hans.
Stjórnarskrá 1874
Á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar 1874 afhentu Danir Íslendingum sérstaka stjórnarskrá. Með stjórnarskránni fékk Alþingi löggjafarvald með konungi og fjárforræði. Hér var fengin „trappa til að standa á“, sagði Jón Sigurðsson við landa sína, en baráttan var langt frá því að vera til lykta leidd. Stjórnarskráin markar þáttaskil í íslenskri sjálfstæðisbaráttu. Eftir þau þáttaskil skýrðist betur fyrir mönnum hversu þýðingarmikið starf Jón Sigurðsson hafði unnið fyrir þjóð sína. Hann var þó ekki viðstaddur þegar Danakonungur sótti Ísland heim á þjóðhátíðina á Þingvöllum. Honum var ekki boðið. Þess í stað sat hann við púlt sitt í Kaupmannahöfn og ritaði vinum og samherjum bréf með fyrirmælum og ráðleggingum.
Stofnun lýðveldis og handritin
Danir veittu Íslandi takmarkaða sjálfsstjórn 1874. Með sambandslögunum, sem tóku gildi 1. desember 1918, var Ísland viðurkennt fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku. Alþingi hlaut þá óskorað löggjafarvald í öllum málum landsins, en danska stjórnin fór áfram með utanríkismál Íslendinga og hafði á hendi gæslu landhelginnar. Nokkrum árum eftir að Íslendingar stofnuðu lýðveldi á Þingvöllum árið 1944, á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar, afhentu Danir fyrrverandi nýlendu sinni þjóðargersemar hennar, handritin, sem Jón hafði varið stórum hluta ævi sinnar til að rannsaka.
Lýðveldi stofnað á Þingvöllum 17. júní 1944. ©Ljósmyndasafn Íslands Þjóðminjasafni/Sigurður Tómasson.