Á döfinni í Jónshúsi 26. mars - 1. apríl
Miðvikudagur 26. mars
Kl 13:00 Vöfflukaffi
Ert þú hætt/ur að vinna?
Hópurinn Heldriborgarar í Kaupmannahöfn og nágrenni var stofnað í september 2019.
Markmið þessa hóps er að sameina Íslendinga á besta aldri sem búa á Kaupamannahafnar- svæðinu (öllum opið).
Haldnir verða ýmsir viðburðir með það að leiðarljósi að bjóða upp á skemmtun og afþreyingu og í leiðinni efla tengslanet fólks.
Hópurinn hefur aðsetur í Jónshúsi og mun dagskráin að mestu leiti fara fram á daginn.
Vertu velkominn í hópinn.
Næsti viðburður er Vöfflukaffi miðvikudaginn 26. mars 13.00
Fimmtudaginn 27. mars
Kl. 11.00 Krílasöngur
Krílasöngur er dásamleg stund fyrir bæði börn og foreldra. Í krílasöng er sungið, dansað, skoðað, leikið og spilað. Tónlistin örvar öll skynsvið litlu krílanna m.a. hreyfi- og tilfinningaþroska barna, svo ekki sé tala um málþroska.
Börnin elska stemmninguna sem skapast og upplifa tónlistina og gleðina sem myndast, og svo fá þau auðvitað tækifæri til að hitta önnur börn og mynda tengsl.
Öll lögin eru á íslensku.Krílasöngur er opin öllum og ekki er gerð nein krafa um sönggetu foreldra eða barna
Söngstundin er leidd af Eyrúnu Ingu MagnúsdótturForeldramorgnar í Jónshúsi eru svo kl. 12 á fimmtudögum, þá gefst foreldrunum tækifæri til að hitta og spjalla aðra foreldra í kjölfarið á söngstundinni.Endilega að skrá sig hér á viðburðinn til að skapa yfirsýn fyrir stjórnandann.
Það eru ekki takmarkaður fjöldi plássa í Krílasöng, öll velkomin!
Sjáumst í Jónshúsi!
KL 12.00 Foreldramorgunn
Staður og stund fyrir foreldra í fæðingarorlofi.
Síðasta fimmtudag í mánuði er boðið upp á vöfflur með rjóma.
Aðgangur ókeypis.
Föstudaginn 28. mars
KL 19:00 Icelandair félagsvist
Verið velkomin á Icelandair félagsvist.
Allir geta spilað félagsvist.
Spilaðar verða 3 umferðir.
Verðlaun eru veitt fyrir flest stig. Veitt verða skammarverðlaun, en þau fær sá sem fær fæst stig. Auk þess verða veitt setuverðlaun til þess sem situr lengst við sama borðið.
Eftir veturinn fá tveir stigahæstu spilarar vetrarins gjafakort frá Icelandair. Tekin eru fjögur bestu spilakvöld (flest stig) hjá hverjum spilara og stigin lögð saman.
Tveir stigahæstu fá verðlaunin.
Húsið opnar kl. 18.30. á slaginu 19 er byrjað að spila.
Félagsvist verið spiluð í Jónshúsi í yfir 20 ár. Félagsvist er fyrir alla, fólk kemur saman, spilar, spjallar, hlær og fær sér smá veitingar.
Áður en byrjað er að spila er farið yfir leikreglur.
Verð er 50 kr.
Laugardagur 29. mars
KL.19:00 Hitster singalong
Þá er komið að næstu fjáröflun Kvennakórsins Dóttir og ætlum við að spila saman HITSTER og taka singalong með íslenskum og erlendum smellum.
Ef þið hafið ekki spilað Hitster áður, þá er ykkar tími kominn núna. Stórskemmtilegt spil sem blandar saman frábærri tónlist, minningum, söng og vitneskju um ártal lagsins. Hitster gerir sko góða stemningu enn betri.
Húsið opnar kl 19.00 og við byrjum spilið kl 20.00.
Komdu og spilaðu og syngdu með okkur Dætrum í Jónshúsi.
Veigar á vægu verði og stuð allt kvöldið á barnum.
Sjáumst hress og syngjandi glöð í Jónshúsi
Sunnudagur 30. mars
KL 11:00 AA- fundur
Kl 13:00 Íslensk messa í Esjas kirkju
Sunnudaginn 30.mars kl. 13 verður messa í Esajas Kirke í Kaupmannahöfn.
Við hlökkum til að sjá sem flesta í notalegri stund.
- Séra Sigfús Kristjánsson prédikar og þjónar fyrir altari,
- Kjartan Jósefsson Ognibene leikur á orgelið og leiðir tónlistina
- Kvennakórinn Dóttir syngur og leiðir safnaðarsöng undir stjórn Eyrúnar Ingu Magnúsdóttur.
Njótum þess að syngja saman, biðja og hlusta á hugleiðingu.
KL. 15:00 Álfar, huldufólk og tröll og áhrif þeirra á íslenskt samfélag, menningu og listir.
Ljósmyndarinn og kvikmyndagerðakonan Inga Lísa Middleton mun fjalla um hvernig sagnir og sögur af huldufólki og álfa hafa haft áhrif á íslenskt samfélag, menningu og listir í gegnum aldirnar. Hún mun taka dæmi um hvernig þessi mikilvægi menningararfur hefur haldið áfram að hvetja Íslendinga til athafna, þ.á.m. í sjálfstæðisbaráttunni, og til sköpunar allt til dagsins í dag. Þessi fyrirlestur var haldinn á þingi um um Huldufólk og Álfa í heimabyggð í menningarhúsinu Hofi á Akureyri síðastliðið vor.
En hvað um nútímafrásagnir og reynslu af huldufólkinu? Hvernig geta þau mótað íslenskt samfélag og menningu í dag og til framtíðar? Inga Lísa mun spyrja garðyrkjufræðinginn, „sjáandann“ og álfahvíslarann, Bryndísi Fjólu Pétursdóttur þessara spurninga og hvernig skapandi fólk og almenningur almennt getur lært að hlusta á náttúruna og skynja hana sér til gagns, hvernig viska hinna huldu heima og íbúa hennar getur veitt innblástur og lausnir til að takast á við brýn vandamál líðandi stundar eins og loftslagsvána.
Ingu Lísu og Bryndísi Fjólu var boðið að halda þennan fyrirlestur í sendiráði íslands í London í janúar 2025.
Kvennakórinn Dóttir syngur lög með álfaþema og Jónshús býður upp í kaffi og vöfflur á eftir.
Þriðjudaginn 1. apríl
KL 18:30 Garnaflækjan
Opin prjóna/handavinnuhópur fyrir Íslendinga sem hafa áhuga á að hittast og prjóna/ gera handavinnu.
Á þriðjudaginn mun prjónahönnuðurinn Thelma Steimann með kynningu, auk þess verður hún með handlitað band til sölu.
Allir velkomnir