• Guðrún og Halla

30.8.2022

Andvari í 99 ár

Bókagjöf frá Guðrúnu Karólínu Jóhannsdóttur. 

Í sumar heimsótti ég Guðrúnu og tók á móti höfðinglegri gjöf, tímaritinu Andvara í 99 ár, frá fyrstu útgáfu árið 1874 til 1974, þó eitt ár vanti í safnið, 1970. 

Fyrsta tölublað Andvara kom út í Kaupmannahöfn árið 1874 og hefur komið út árlega síðan, ef frá eru talin árin 1878 og 1892, en þau ár féll útgáfa ritsins niður. Andvari hefur frá fornu fari einkum fjallað um sögu þjóðarinnar og íslensk menningarmál. Andvari var gefinn út af Hinu íslenska þjóðvinafélagi sem stofnað var árið 1871 af 17 alþingismönnum. Markmið félagsins í upphafi var að halda uppi réttindum Íslendinga, efla samheldni og stuðla að framförum lands og þjóðar á sem flestum sviðum. Fyrsti forseti Hins íslenska þjóðvinafélags, frá 1871 til 1879, var Jón Sigurðsson, og er því vel við hæfi að safn Andvara sé hýst í íbúð Jóns á þriðju hæðinni í Jónshúsi. 

Af einskærum áhuga á menningararfi Íslendinga safnaði Guðrún tímaritum Andvara og batt þau inn í myndarlegar bækur, enda hafði hún numið bókband á miðjum aldri. Safnið var og er stolt Guðrúnar og hefur ávallt verið í hennar nánasta umhverfi, en nú er kominn tími á að finna safninu nýtt heimili og vegna tengingar við Danmörku og hús Jóns Sigurðssonar var það ósk hennar að safnið yrði til frambúðar hluti af Jónshúsi. 


 Við þökkum Guðrúnu og fjölskyldu hennar fyrir höfðinglega gjöf. Bækurnar eru fallegar og innihalda menningararf okkar Íslendinga. Eru nú geymdar á bókasafninu í íbúð Ingibjargar og Jóns þar sem fólki gefst kostur á að blaða í þeim.