17.9.2021

Auður Hauksdóttir hlaut verðlaun Jóns Sigurðssonar árið 2021.

Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon afhenti verðlaun Jóns Sigurðssonar fyrir árið 2021, en að þessu sinni féllu þau í hlut Auðar Hauksdóttur, prófessors emeritus. Auður hefur verið mikilvirk í rannsóknum á danskri menningu og danskri tungu sem erlendu máli og hefur lagt af mörkum ríkulegan skerf til skilnings á mikilvægi dönskukennslu í íslenska skólakerfinu og þeirri þýðingu sem danska hefur sem samskiptamál fyrir Íslendinga við aðrar norrænar þjóðir.


Með þessum orðum þakkar Auður Hauksdóttir fyrir sig.

Auður Hauksdóttir

Afmælishátíð í Jónshúsi, 11. september 2021.

Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, sendiherra Helga Hauksdóttir, virðulega samkoma.

Af heilum hug vil ég þakka forsætisnefnd Alþingis fyrir þá miklu sæmd sem hún sýnir mér með því að veita mér verð- laun Jóns Sigurðssonar forseta.

Einn lærimeistara minna sagði eitt sinn að greinin „Hugvekja til Íslendinga“ bæri þess merki að vera skrifuð af miklum heimsborgara. Jón Sigurðsson lifði á tímum umbreytinga þegar þeyr frelsis lék um Danmörku og álfuna alla. Víða þurfti að færa miklar fórnir þegar sótt var fram og barist fyrir viðurkenningu á rétti einstaklinga, hópa og þjóða. Í því ljósi er í hæsta máta athyglisvert að Jón Sigurðsson rækti forystuhlut-verk sitt í baráttu þjóðar sinnar fyrir sjálfstæði í ótrúlega góðri sátt við Dani. Þar skipti heimsborgaraleg framganga Jóns sköpum og áhugi hans á straumum og stefnum samtímans, þekking á sögu Norðurlanda og djúpstæður skilningur og innsýn í menningu Dana. Mestu munaði þó um dönsku- kunnáttu Jóns sem gerði honum kleift að miðla hugmyndum, jafnt til Íslendinga sem Dana, gagnrýna og mótmæla á kjarn- yrtri dönsku af dirfsku og festu og sætta ólík sjónarmið í ræðu og riti, ef svo bar undir. Tjáning í svo ólíku samhengi útheimtir afbragðs tungumálakunnáttu.

Árangur Jóns sýnir glöggt, hve mikla þýðingu menningar- innsæi og tungumálakunnátta hefur fyrir jákvæð samskipti einstaklinga og þjóða. Má í því sambandi einnig minna á hve dýrmætt það var fyrir okkur Íslendinga í hruninu og í kjölfar þess að eiga í okkar röðum fólk sem hafði afbragðs tök á erlendum tungum og gjörþekkti menningu sem þeim tengist – þekkingu og færni, sem gerði þessum landsmönnum okkar kleift að koma sjónarmiðum Íslands og hagsmunum á framfæri og veita svör í fjölmiðlum víða um lönd og leiðrétta rangfærslur og ósannindi – rétt eins og Arngrímur lærði forðum, Jón Sigurðsson og fleiri síðar.

„Ef þú vilt fullkominn vera í fróðleik þá nem þú allar tungur, en týn þó eigi að heldur þinni tungu.“ segir í Konungsskugg- sjá. Enga ósk á ég heitari en þá að okkur Íslendingum auðnist að halda í heiðri þessa heimsborgaralegu sýn forfeðranna og að ungu fólki bjóðist um alla framtíð að nema erlendar tungur og kynna sér menningu annarra þjóða – jafnt heimstungur sem tungur nánustu vinaþjóða – um leið og það leggur rækt við íslenska tungu og menningu.

Um þessar mundir er þess minnst að 50 ár eru liðin frá því að menningarstarfsemi í núverandi mynd hófst hér í Jónshúsi. En fundir Íslendinga eiga sér lengri sögu undir þessu þaki. Eftir að Jón og Ingibjörg fluttust í húsið varð það fljótt samkomu- staður Íslendinga í Höfn, þar sem þeir fregnuðu nýtt, skiptust á skoðunum og auðguðu andann í félagi hver við annan. Ég hef fyrir satt að Ingibjörg hafi jafnan haft á orði við landa sína: „Viljið þér ekki líta inn til okkar einhvern daginn?“ Starfsemin í Jónshúsi nú endurspeglar því hugsýn Ingibjargar og heldur í heiðri metnað og gestrisni þeirra hjóna.

Megi okkur Íslendingum auðnast að hafa víðsýni, stórhug og heimsborgaralega framgöngu Jóns Sigurðssonar að leiðarljósi um langa framtíð.

Takk fyrir.