• Böðvar Guðmundsson

17.5.2021

Böðvari Guðmundssyni veitt verðlaun Jóns Sigurðssonar 2020

Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta árið 2020 féllu í hlut Böðvars Guðmundssonar, rithöfundar, ljóðskálds, leikskálds og fyrrverandi kennara. Böðvari voru veitt verðlaunin fyrir framlag hans til að stuðla að blómlegri menningar- og félagsstarfsemi í Jónshúsi, en í september 2020 var hálf öld liðin frá því að Jónshús varð miðstöð félags- og menningarstarfsemi Íslendinga í Kaupmannahöfn.

Böðvar Guðmundsson hefur lagt ríkulegan skerf af mörkum til félags- og menningarlífs Íslendinga í Kaupmannahöfn um langt árabil og tekið þátt í því að styrkja tengsl Danmerkur og Íslands. Hann hefur staðið fyrir námskeiðum fyrir Íslendinga á Hafnarslóð, stofnað bókmenntafélag og tekið virkan þátt í félagslífi, ásamt því að helga líf sitt skrifum frá því hann flutti til Kaupmannahafnar fyrir drjúgum 30 árum síðan.

Heimsfaraldur kórónuveirunnar á síðasta ári kom í veg fyrir að hægt væri að afhenda Böðvari verðlaunaskjalið með athöfn í Jónshúsi eins og venja hefur verið á sumardaginn fyrsta. Ljóst er að enn verður nokkur dráttur á því að hægt verði að afhenda Böðvari skjalið og því ákvað stjórn Jónshúss að birta á vef og samfélagsmiðlum myndband með samtali við Böðvar  honum til heiðurs.

Sjá viðtal hér.