• Bókasafn

1.9.2017

Bókasafnið í Jónshúsi

Í Jónshúsi er til mikið af bókum. Bækur eru á öllum hæðum, þó flestar í kjallara hússins.

Bókasafnið hefur verið á flakki um húsið í gegnum tíðina, lengi vel var það aðeins opið tvær klukkustundir á viku. Fyrir nokkrum var ákveðið að færa safnið í kjallara hússins og hafa það opið þegar húsið er opið. Þessi ákvörðun hefur reynst farsæl.

Bókasafnið er nú mikið notað. Fastagestir í húsinu nýta safnið vel, en auk þess koma margir í Jónshús til þess til að fara á safnið. Og bókasafnsgestunum fjölgar sífellt.

Mörgum gestum fylgja eðlilega margar fyrirspurnir um bækur. Ekki var alltaf auðvelt að svara, því skráning á bókunum var löngu úr sér gengin.

Ómögulegt var að geta ekki svarað fólki og var því þá ekki um annað að ræða en að skrá bækurnar upp á nýtt, eftir nútímalegu kerfi, til að finna út hvaða bækur eru til.

Með ómetanlegri hjálp frá sjálfboðaliðunum Elínu Ösp Gísladóttur og Hildi Ýr Ómarsdóttur hefur okkur tekist að skrá bækurnar, ekki enn alveg allar, en við erum búnar að skrá yfir 7000 bækur.

IMG_7798

Og með aðstoð Bjarka Elíasi Kristjánssyni er nú hægt að sjá hvaða bækur eru til og hvar í húsinu þær eru geynmdar. Ekki er þó endilega öruggt að bækurnar séu inni þó þær séu til, þar sem skráningarkerfið heldur ekki utan um útlán, ekki enn, að minnsta kosti. Kerfið er enn í þróun.

Hér er hægt að sjá hvaða bækur eru til.  

Útlanakerfið er einfalt, sá eða sú sem fær lánaða bók skrifar nafn bókarinnar á blað og skrikar síðan nafnið út þegar bókinni er skilað. Þannig er hægt að sjá þegar bók er skilað.

IMG_9809

Meðalaldur bóka er nokkuð hár, en með mikið af góðum bókagjöfum er safnið í stöðugri endurnýjun og töluvert um nýjar bækur.