• Dr. Ólafur Þór Ævarsson

8.10.2018

Fræðimaður segir frá

Dr. Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir og fræðimaður í Jónshúsi ætlar að fjalla um Streituskólann- kulnun í starfi og sjúklega streitu.

Streituskólinn
Í Streituskólanum er veitt fræðsla um álag, kulnun í starfi og sjúklega streitu. Gerð er grein fyrir skilgreiningum á þessum hugtökum og sagt er frá hvernig heilinn bregst við álagi. Að lokum eru gefin streituráð.

Kulnun í starfi og heilsubrestur vegna streitu hefur verið mikið til umfjöllunar á öllum Norðurlöndunum undanfarin ár og virðist sem þessi vandamál fari vaxandi í vestrænum löndum. Veikindi af þessu tagi valda ekki aðeins vanlíðan heldur einnig veikindafjarveru og auknum kostnaði við rekstur fyrirtækja og fyrir samfélagið allt.

Ólafur Þór er sérfræðingur í geðlækningum og hefur starfað að lækningum og kennslu við háskólageðdeildir á Íslandi og í Svíþjóð. Hann hefur stundað vísindarannsóknir og lauk doktorsprófi frá læknadeild Gautaborgháskóla 1998. Hann hefur sinnt fræðslu og handleiðslu um árabil og flutt fyrirlestra víða og birt fræðilegar greinar í erlendum vísindatímaritum, ritað greinar í íslensk tímarit um geðraskanir og geðheilsu og útbúið og þýtt kennsluefni og kynningarrit fyrir fagfólk og almenning. Ólafur Þór hefur lengi veitt ráðgjöf um heilbrigðismál og beitt sér fyrir fræðslu og forvörnum og haft sérstakan áhuga á mikilvægi góðrar geðheilsu og geðheilsueflingu, svo og áhrifum streitu og kulnunar í starfi. Ólafur Þór er stofnandi Forvarna ehf., sem hafa í tæp tuttugu ár rekið Lækninga- og fræðslusetur ásamt Streitumóttökunni og Streituskólanum. Hann starfar sem geðlæknir og er einn af ráðgjöfum fyrirtæksins. Ólafur Þór var nýlega á Institutet för stressmedicin í Gautaborg í eitt ár til að kynna sér rannsóknir Svía á streitu. Hann er nú fræðimaður í Jónshúsi m.a. til þess að stunda rannsóknir á streitu og leita upplýsinga um hvernig Danir verjast streitunni.

Frekari upplýsingar eru á heimasíðunnni stress.is  og Facebooksíðunni Streituskólinn.