10.10.2024

Fyrsta heimsókn forsetahjóna og konungshjóna í Jónshús

Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, og Björn Skúlason, eiginmaður hennar, Friðrik X Danakonungur og Mary Elizabeth Danadrottning heimsóttu Jónshús í dag í tilefni ríkisheimsóknar forseta Íslands og eiginmanns til Danmerkur. Var þetta fyrsta heimsókn dansks þjóðhöfðingja í Jónshús.

Forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, tók á móti hinum opinberu gestum í Jónshúsi ásamt Rögnu Árnadóttur, skrifstofustjóra Alþingis, Auði Elvu Jónsdóttur, formanni stjórnar Húss Jóns Sigurðssonar, og Höllu Benediktsdóttur, forstöðumanni hússins. Auk opinberra sendinefnda var forseta danska þingsins, Søren Gade, boðið í Jónshús af þessu tilefni.

Klar_9

Forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, býður Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, og Friðrik X Danakonung velkomin í Jónshús.
Ljósmynd / Hildur María Valgarðsdóttir

Forseti Alþingis flutti gestum ávarp þar sem hann sagði frá hlutverki hússins, sem hefur verið miðstöð félagsstarfs Íslendinga á Hafnarslóð í yfir 50 ár. Þá gerði hann grein fyrir árlegri Hátíð Jóns Sigurðssonar sem hefur verið haldin á sumardaginn fyrsta frá því árið 2008. Við það tilefni hafa verið veitt Verðlaun Jóns Sigurðssonar einstaklingum eða félagasamtökum sem eflt hafa tengsl Íslands og Danmerkur með störfum sínum. Meðal verðlaunahafa má nefna frú Vigdísi Finnbogadóttur, fv. forseta Íslands, og Bertel Haarder, fv. menntamálaráðherra Danmerkur. Jafnframt ávörpuðu samkomuna þær Halla Benediktsdóttir, forstöðumaður Jónshúss, Jórunn Einarsdóttir, formaður FKA í Danmörku, og Jóhanna Edwald, formaður Katla Nordic. Þá skoðuðu forsetahjónin og konungshjónin sýningu endurgerðs heimilis Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur og rituðu í gestabók Jónshúss.

Að dagskrá lokinni bauð forseti Alþingis hinum opinberu gestum og sendinefndum til hádegisverðar í Jónshúsi og karlakórinn Hafnarbræður fluttu lag áður en forsetahjón og konungshjón kvöddu Jónshús.

Klar_32

Forsetahjónin og konungshjónin rita nöfn sín í gestabók Jónshúss.
Ljósmynd / Hildur María Valgarðsdóttir