13.8.2021

Hinsegin huldukonur: Um graðar konur og rómantíska vináttu fyrr á öldum

Í þessum fyrirlestri ætla hjónin og samstarfsfélagarnir Ásta Kristín Benediktsdóttir lektor í íslenskum samtímabókmenntum og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir sagnfræðingur að fjalla um hinsegin huldukonur á Íslandi á 18. og 19. öld og fyrri hluta þeirrar tuttugustu, það er að segja konur sem á einhvern hátt mætti flokka sem hinsegin fyrir tíma nútímasjálfsmyndarhugtaka.

Í heimildum af ýmsu tagi, svo sem þjóðsögum, handritum, sagnaþáttum og fjölmiðlaumfjöllun, má finna sögur af konum fyrr á öldum sem féllu ekki alls kostar að hefðbundnum gagnkynhneigðum viðmiðum. Sumar fengu viðurnefni á borð við „graða“ og „karlmaður“ út af útliti sínu og háttalagi. Aðrar voru nafntogaðar „piparjúnkur“ í Reykjavík eða stofnuðu til langtímasambúðar með annarri konu. Í þessum fyrirlestri verður tæpt á sögu þessara kvenna, rýnt í þá merkingu sem lesa má úr heimildum um þær og skoðað hvaða möguleika konur höfðu á að skapa sér líf og tilveru utan við hefðbundið fjölskyldumynstur.

Fyrirlesturinn byggir á heimildasöfnunarverkefninu Huldukonur: Hinsegin kynverund kvenna á Íslandi fyrir 1960 sem Ásta Kristín og Hafdís ásamt Írisi Ellenberger hleyptu af stokkunum árið 2017. Sjá nánar: www.huldukonur.is.