11.10.2022

Hulda Sif Ásmundardóttir sýnir í Jónhúsi

Í KAPLASKJÓLI

Hulda Sif Ásmundsdóttir (f.1981) er búsett í Kaupmannahöfn með fjölskyldu sinni og er á öðru ári í mastersnámi í ljósmyndun við Listaháskólann í Gautaborg; HDK-Valand.

Í náminu er hún að vinna með ljósmyndasafn föðurömmu sinnar sem hún gaf henni fyrir rúmlega 15 árum síðan. Hingað til hefur Hulda Sif unnið að sínum eigin verkefnum en aldrei áður fengist við efni annarra.

“Ég er að vinna með negatífusafn ömmu minnar sem hún gaf mér fyrir 15 árum síðan þegar ég byrjaði að læra ljósmyndun. Myndirnar eru teknar á ákveðnu svæði i Reykjavík, nánar tiltekið í Vesturbænum, á árunum 1944-1964 ca.
Á þessum stað elst ég síðan upp.

Amma mín skrásetti líf þeirra afa þegar þau eru að byggja húsið sitt og stofna fjölskyldu. Á þessum árum er Reykjavík að breytast frá því að vera þorp yfir í að vera borg, því er margt áhugavert að skoða í sögulegu og samfélagslegu samhengi. Áhugaverðast þykir mér að það er amma sem tekur myndirnar, sem ekki var algengt á þessum tíma. Safnið er frekar stórt, mér reiknast til að ég hafi skannað inn uþb. 450 negatífur, meira efni finnst og hef ég verið að sanka að mér því sem mér þykir áhugavert hægt og rólega.”

Sýningin í Jónshúsi mun innihalda ljósmyndir, bókverk, hljóðverk og gefur innsýn í það sem Hulda Sif er að fást við á þessum tímapunkti; vonandi áhugavert samtal um minningar, uppruna og samfélagið. 
 
Á Facebook síðu Jónshúss er að finna myndir frá velheppnaði opnun.