• Frá kóramóti í Gautaborg 2005.

27.3.2017

Kóramót íslenskra kóra í Norður - Evrópu

Íslensku kórarnir Kennakórinn, kammerkórinn Staka og kvennakórinn Dóttir taka þátt í kóramóti sem fram fer í Kaupmannahöfn 31. mars til 2. apríl.

Íslendingar eru þekktir fyrir mikinn söngáhuga og ríka kórhefð.  Íslendingar erlendis hittast gjarnan til söngs og í mörgum stærri borgum Norður-Evrópu má finna kóra sem skipaðir eru brottfluttum Íslendingum.

Thumbnail_11059642_10153020260242928_5234634501988518044_n

 

Annað hvert ár, síðast liðin 20 ár, hafa íslenskir kórar í N-Evrópu hist og haldið kóramót. Heimaborgirnar skiptast á að halda mótin og í ár verður kóramótið haldið í Kaupmannahöfn í umsjón kammerkórsins Stöku, Íslenska kvennakórsins í Kaupmannahöfn og hins nýstofnaða kvennakórs Dóttur sem allir hafa notið þeirra forréttinda að fá aðstöðu til æfinga í Jónshúsi.

Í ár er mótið óvenju fjölmennt, 12 kórar frá 6 löndum hafa boðað komu sína og er gert er ráð fyrir því að fjöldi þátttakenda verði um 200 talsins.  

Kóramótið stendur yfir helgina 31.3.-2.4. og fer meginhluti dagskrárinnar fram á laugardeginum 1. apríl á Nordatlantens Brygge.  Þann dag hittast kórarnir til sameignlegra æfinga og fundarhalda og halda svo sameiginlega tónleika, sem að þessu sinni verða í Helligåndskirken á Strikinu. Um kvöldið er svo efnt til hátíðarkvöldverðar, þar sem kórmeðlimir hittast og gleðin er við völd.

 Tónleikarnir í Helligåndskirken á Strikinu hefjast klukkan 17.00. Þar munu kórarnir 12 allir koma fram og er dagskráin við allra hæfi. Tónleikunum lýkur með samsöng allra kóranna og ber þar hæst íslenska þjóðsöninn, sem allir kórarnir syngja saman. Miðar eru seldir við innganginn og er aðgangseyrir dkr. 50.00.

Upplýsingar um viðburðinn þann 1. april er að finna hér.

Þátttakendur koma frá, Stokkhólmi, Þrándheimi, Árósum, Lúxemborg, Kaupmannahöfn, Bergen, Gautaborg, Lundi, London og Brussel.