17.11.2015

Úthlutun fræðimannsíbúðar Húss Jóns Sigurðssonar 2016, 4. hæð

Úthlutunarnefnd fræðimannsíbúðar, samkvæmt reglum um Hús Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn, hefur lokið störfum og úthlutað íbúð fræðimanns á 4. hæð hússins árið 2016.

Nefndinni bárust að þessu sinni umsóknir um dvöl til að sinna 32 verkefnum. Úthlutað var dvalartíma til að vinna að 11 verkefnum:

  • Ársæll Guðmundsson, til að vinna rannsókn á aðferðarfræði Energinet við undirbúning framkvæmda í flutningskerfum raforku;
  • Ásta Svavarsdóttir, til að vinna verkefni um málbreytingar og tilbrigði í íslensku máli á 19. öld: tilurð opinbers málstaðals;
  • Clarence E. Glad, til að vinna verkefni sem ber heitið „Rask 104 og æfisaga Sveinbjarnar Egilssonar (1791-1852)“;
  • Eiríkur G. Guðmundsson, til að vinna verkefni sem ber heitið „Stórabóla 1707-1709 á Íslandi og bólusóttir í Danmörku á öndverðri 18. öld“;
  • Harpa Björnsdóttir, til að vinna verkefni um lífssögu Sölva Helgasonar;
  • Ólafur Kvaran, til að vinna verkefni um Einar Jónsson myndhöggvara;
  • Stefán Már Stefánsson, til að vinna verkefni um sjóði í félögum og ráðstöfun þeirra;
  • Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, til að vinna að samanburði á heilbrigðiskerfum og heilsufari á Norðurlöndum;
  • Þorleifur Hauksson, til að vinna að útgáfu Jómsvíkinga sögu á vegum  Hins íslenska fornritafélags.
  • Þórður Helgason, til að vinna verkefni um sögu íslensks brags á 19. og 20. öld;
  • Þórunn Erlu- og Valdimarsdóttir, til að vinna verkefni sem ber heitið: „Skúli landfógeti Magnússon - saga frá átjándu öld.“

Í úthlutunarnefndinni eiga sæti dr. Ágúst Einarsson, prófessor og fyrrverandi rektor við Háskólann á Bifröst, sem er formaður nefndarinnar, dr. Anna Soffía Hauksdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, og dr. Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor við Háskólann á Akureyri. Ritari nefndarinnar er Jörundur Kristjánsson, forstöðumaður skrifstofu forseta Alþingis.