• Ingimar Oddsson og Jón Kr. Ólafsson

2.5.2017

Söngvarinn góðkunni frá Bíldudal Jón Kr. Ólafsson heldur tónleika í Jónshúsi

Stórkrúnerinn Jón Kr. Ólafsson leggur land undir fót og heldur tónleika í Jónshúsi sunnudaginn  7. maí 2017 kl. 15:00.
Jón hefur fengið til liðs við sig söngvarann Ingimar Oddsson en þeir eru báðir frá Bíldudal. 
Léttsveit undir stjórn Jóseps Arnar Blöndal mun leika undir með þeim félögum og aðgangur er ókeypis. 

Haustið 2014 kom Jón Kr. til Kaupmannahafnar og hélt tónleika í Jónshúsi.

10628660_10152601313370617_7610761664227821568_o

Jón Kr. er fæddur 22. ágúst 1940 og ólst upp og býr á Bíldudal. Hann er Arnfirðingum að góðu kunnur og hefur oft skemmt þeim með söng sínum gegnum árin. Hann hefur einnig oft stigið á stokk hjá Arnfirðingafélaginu á skemmtunum þess í Reykjavík og sungið af list sinni fyrir brottflutta Arnfirðinga.

 

Jón Kr. gerðist poppari 1962 er hann gekk til liðs við hina rómuðu hljómsveit Facon. Það samtarf entist ein sjö ár og lauk 1969 með hinu vinsæla lagi: „Ég er frjáls“. Þá var hann á besta aldri og röddin aldrei betri svo hann flutti sig um set til Reykjavíkur og hóf upp raust sína á betri skemmtistöðum borgarinnar svo sem Hótel Borg og Hótel Sögu þar sem hann söng um nokkurra ára skeið. Það var svo árið 1983 sem SG-hljómplötur gáfu út stóra plötu með Jóni Kr. þar sem hann syngur kunn einsöngslög við undirleik Ólafs Vignis Albertssonar. Um þá plötu sagði Árni Johnsen í grein í Morgunblaðinu:

„Í gullabúi íslenskrar menningar er margur gimsteinn frá náttúrunnar hendi og einn af þeim er Jón Kr. Ólafsson frá Bíldudal. Ljóðasöngvari af guðsnáð með fallega rödd og mikla smekkvísi í lagavali, en á nýútkominni hljómplötu hans frá SG hljómplötum syngur hann kunn íslensk einsöngslög. Jón Kr. hefur þétta og fagra rödd sem hann beitir listilega án þess að hafa fengið sérstaka skólun í heimi tónlistarskólanna.“[1]

 

Þá hefur Jón Kr. verið tíður gestasöngvari á gömludansakvöldum í Reykjavík. og hefur sungið meðal annars með “Stuðmönnum” enda stuðmaður mikill og ennfremur með “Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur”.

Jón Kr. stendur fyrir og rekur tónlistarsafnið Melódíur minninganna að Reynimel við Tjarnarbraut 5 á Bíldudal.

Íslendingafélagið verður með veitingasölu.

 Þetta er einstakt tækifæri að sjá og heyra í einum besta og elsta núlifandi söngvara Íslands.

Hér er hægt að hlusta á viðtal við Jón Kr. hér.