11.12.2018

Sýning á endurgerðu heimili Ingibjargar og Jóns

Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, opnaði fimmtudaginn 6. desember sl. sýningu í Jónshúsi í Kaupmannahöfn á heimili Ingibjargar Einarsdóttur og Jóns Sigurðssonar. Heimili þeirra sem var á 3. hæð hússins hefur verið endurgert á grundvelli heimilda um líf þeirra hjóna í Kaupmannahöfn, byggingasögulegra rannsókna á íbúðinni sjálfri auk sagnfræðilegra rannsókna á heimilislífi um miðbik 19. aldar í Kaupmannahöfn.

Á sýningunni er sjónum beint að heimili hjónanna sem miðstöðvar Íslendinga og þætti Jóns Sigurðssonar í sjálfstæðisbaráttunni. Þjóðminjasafn Íslands vann að endurgerð sýningarinnar fyrir hönd Alþingis. 

Mikill fjöldi Íslendinga sem búsettir eru í Kaupmannahöfn var viðstaddur opnunarhátíðina og einnig sungu þeir kórar sem hafa aðstöðu í Jónshúsi jólalög. 

Við þetta tækifæri afhenti forseti Alþingis Íslenskuskólanum, sem hefur aðsetur í húsinu, bókagjöf, eitt hundrað eintök af barna- og unglingabókinni Óskabarn, sem fjallar um Jón Sigurðsson og er skrifuð af Brynhildi Þórarinsdóttur.

Steingrímur J., Marta og Jórunn

Hér má sjá myndir frá opnuninni.