6.9.2022

Þó nokkuð mörg augnablik

" Þó nokkuð mörg augnablik“ er sýning með kærum vinum, annar hér og hinn þar.

Guðni átti þann draum að sýna í Danmörku, sá draumur rætist núna.

Guðni Már Henningsson og Steinunn Helga Sigurðardóttir, voru nánir vinir í yfir 30 ár.

Nafnið á sýningunni er titill á bók sem Guðni gaf út 2021.

Nánar um viðburðinn hér.

Við höfum hver okkar minningar, saman og ekki saman. Þessi sýning er gott dæmi um það.
Guðni Már bjó í borg, með öllu því sem þar er, ég bý í sveit umvafin náttúrunni.

Guðni Már starfaði lengst af sem dagskrárgerðarmaður á Rás 2. Fyrir um tíu árum tók hann upp á því að mála myndir. Sýningar hans eru orðnar átján talsins.

Guðni Már lést í Santa Cruz de Tenerife 30 september 2021.

Guðni málaði af ástríðu í mörg ár, en ljósmyndun var hægt og sígandi að taka framúr málaralistinni. Ljósmyndir hans eru minimalískar og teknar á gamlan farsíma. Við það verða myndirnar hráar og öðruvísi.

Á sýningunni „Þó nokkuð mörg augnablik“ sýnir Guðni ljósmyndir teknar á Rambla de Santa Cruz. Við þá götu sem hann tók ástfóstri við síðustu árin sem hann lifði.

Jafnan sat hann á götukaffisölunni Kiosco la Paz sem er við friðartorgið Plaza la Paz á Römblu, þar hafði hann einokað borð eitt þar sem sólin skein einna lengst.

Hér í Jónshúsi sýnir Guðni Már ljósmyndir sem hann tók yfir nokkur misseri á Römblunni sinni síðustu árin sem hann lifði.

Steinunn Helga útskrifaðist úr MHÍ 1993 og stundaði framhaldsnám í myndlist hjá Jannis Kounellis í Kunstakademie Düsseldorf. Hún hefur verið búsett í Danmörku frá árinu 1993. Hún hefur haldið fjölda sýninga og skipulagt myndlistarsýningar fyrir listasöfn, myndlistamenn og galleri.
Innblásturinn í verk Steinunnar á sýningunni „minningarbrot“ eru verkin ”Andaþráður” sem eru tengd sögu Steinunnar. Í marga ættliði var það hefð kvenna að sauma út myndir, sauma í púða, stóla og annað sem prýddi heimili þeirra. Þetta eru minningarbrot, ættmæðra og sögu Steinunnar

Í upphafi ferils Steinunnar vann hún út frá þeim munstrum sem tengdust bæði íslenskri sögu og sögu ættmæðra Steinunnar. Í mörg ár þróuðust þessi verk í þá átt sem við fáum sjá á þessari sýningu.

Í dag er Steinunn ennfremur innblásin af sínu daglega lífi í Danmörku. Daglega lífið og tengingin við það sem er nær í tíma og rúmi. Það sem alltaf er og einskis krefur nema þess - að vera.
Fuglarnir, blómin, kisurnar …
Steinunn sér það sem sína þræði til lífsins, sína tengingu við lífið og þess að vera.

Á sýningunni eru einnig nokkur olíumálverk, þar sem Steinunn vinnur með minningarbrot, frá Íslandi, sem hafa haft hvað mest áhrif á hana, tíminn þar sem rökkur færist yfir og himinn og haf mætast í bláum litatóni sem umvefur allt.

Steinunn vinnur með blandaða tækni.

Steinunn Helga hefur búið í Danmörku síðan 1993.
Nánari upplýsingar um Steinunni er hægt að sjá á heimasíðunni hennar www.steinunnhelga.com.