• Verðlaun Jóns Sigurðssonar 2012 afhent.
    Verðlaun Jóns Sigurðssonar 2012
    Forseti Alþingis, Ásta R. Jóhannesdóttir, afhendir Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta árið 2012 dr. phil. Pétri M. Jónassyni, vatnalíffræðingi og prófessor emeritus.

Dr. phil. Pétur M. Jónasson hlýtur Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta 2012

Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta árið 2012 hlýtur dr. phil. Pétur M. Jónasson, vatnalíffræðingur og prófessor emeritus. Hann hefur með framúrskarandi fræðistörfum á sviði vatnalíffræði í Danmörku og á Íslandi lagt fram mikilvægan skerf til að styrkja vísindasamstarf þjóðanna. 

Hátíð Jóns Sigurðssonar var haldin í Jónshúsi í Kaupmannhöfn í gær, á sumardaginn fyrsta, 19. apríl 2012. Markmiðið með hátíðinni er að heiðra minningu Jóns Sigurðssonar og halda á loft verkum hans og hugsjónum. Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, afhenti Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta. Alþingi veitir verðlaunin í minningu starfa Jóns forseta í þágu Íslands og Íslendinga.

Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta árið 2012 hlýtur dr. phil. Pétur M. Jónasson, vatnalíffræðingur og prófessor emeritus. Hann hefur með framúrskarandi fræðistörfum á sviði vatnalíffræði í Danmörku og á Íslandi lagt fram mikilvægan skerf til að styrkja vísindasamstarf þjóðanna. Jafnframt var Pétur um árabil í forustu Hins íslenska fræðafélags í Kaupmannahöfn sem stóð að merkum útgáfum í forsetatíð hans. Fyrir það hlýtur hann Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta árið 2012.

Verðlaunin hafa áður hlotið:
2011: Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.
2010: Søren Langvad byggingarverkfræðingur.
2009: Erik Skyum-Nielsen bókmenntafræðingur.
2008: Guðjón Friðriksson sagnfræðingur.