Frú Vigdís Finnbogadóttir hlýtur Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta 2011
Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, hlýtur Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta árið 2011. Í forsetatíð sinni efldi hún og styrkti vináttu milli Íslands og Danmerkursem ötull talsmaður menningarsamskipta þjóðanna.
Hátíð Jóns Sigurðssonar var haldin í Jónshúsi í Kaupmannhöfn kvenréttindadaginn 19. júní 2011. Jóhanna Sigurðardóttir flutti hátíðarræðu við þetta tilefni og Sólveig Pétursdóttir, formaður undirbúningsnefndar afmælis Jóns Sigurðssonar, kynnti margmiðlunarsýningu sem gerð er í tilefni 200 ára afmælisársins.
Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, afhenti Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta, en Alþingi veitir verðlaunin í minningu starfa Jóns forseta í þágu Íslands og Íslendinga. Þau hlýtur hverju sinni einstaklingur sem hefur unnið verk er tengjast hugsjónum og störfum Jóns Sigurðssonar. Þessi verk geta verið á sviði fræðistarfa, viðskipta eða mennta- og menningarmála.
Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta árið 2011 hlýtur frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands. Í forsetatíð sinni efldi hún og styrkti vináttu milli Íslands og Danmerkursem ötull talsmaður menningarsamskipta þjóðanna. Forusta hennar í stjórn sjóðsins Den Nordatlantiske Brygge tryggði endurbyggingu „Bryggjunnar“ þar sem síðan hefur verið haldið á loft menningu Íslands í Kaupmannahöfn. Fyrir það hlýtur Vigdís Finnbogadóttir Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta árið 2011.
Verðlaunin hafa áður hlotið:
2010: Søren Langvad byggingarverkfræðingur.
2009: Erik Skyum-Nielsen bókmenntafræðingur.
2008: Guðjón Friðriksson sagnfræðingur.
Hátíð Jóns Sigurðssonar var haldin í Jónshúsi í Kaupmannhöfn í dag, kvenréttindadaginn 19. júní 2011. Markmiðið með hátíðinni er að heiðra minningu Jóns Sigurðssonar og halda á loft verkum hans og hugsjónum. Stjórn húss Jóns Sigurðssonar hefur umsjón með hátíðinni með fulltingi forseta Alþingis og forsætisnefndar.