Guðjón Friðriksson handhafi Verðlauna Jóns Sigurðssonar forseta 2008
Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta árið 2008 hlýtur Guðjón Friðriksson sagnfræðingur. Verk Guðjóns um ævi Jóns Sigurðssonar, sem kom út í tveimur bindum árin 2002 og 2003, er ástæða þess að Guðjón hlýtur Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta að þessu sinni.
Hátíð Jóns Sigurðssonar var haldin í Jónshúsi í Kaupmannahöfn 24. apríl 2008, á sumardaginn fyrsta.
Markmiðið með hátíðinni er að heiðra minningu Jóns Sigurðssonar og halda á loft verkum hans og hugsjónum.
Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, hélt hátíðarræðu um arfleifð Jóns Sigurðssonar og mikilvægi hennar, m.a. í ljósi umræðna um Ísland og Evrópusambandið. Þá afhenti forseti Alþingis í fyrsta sinn Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta.
Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta árið 2008 hlýtur Guðjón Friðriksson sagnfræðingur. Guðjón Friðriksson hefur skrifað ævisögur nokkurra þjóðkunnra Íslendinga, m.a. Einars Benediktssonar, Hannesar Hafsteins og Jónasar Jónssonar frá Hriflu. En það er verk hans í tveimur bindum um ævi Jóns Sigurðssonar, sem kom út árin 2002 og 2003, sem er ástæða þess að Guðjón Friðriksson hlýtur Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta að þessu sinni. Ævisagan hlaut góðar viðtökur, jafnt gagnrýnenda sem lesenda og blés nýju lífi í umræður um ævi og störf Jóns Sigurðssonar. Guðjón hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir annað bindi ævisögunnar. Þess má geta að það var í þriðja sinn sem Guðjóni hlotnaðist sú viðurkenning fyrir ritstörf sín.
Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta eru veitt af Alþingi í minningu starfa Jóns Sigurðssonar í þágu Íslands og Íslendinga. Verðlaunin eru veitt þeim einstaklingi sem hefur unnið verk sem tengjast hugsjónum og störfum Jóns Sigurðssonar. Þessi verk geta verið á sviði fræðistarfa, viðskipta eða mennta- og menningarmála. Árið 2008 nemur verðlaunafjárhæðin 500 þúsundum króna.